Rökþrota útgerð

Eins og við var að búast þá fer nú fram fjörleg umræða um sjávarútvegsmál. Í kjölfar mjög afdráttarlausrar stefnu Samfylkingarinnar sem samþykkt var um kvótamálin. Svo skemmtilega vill til að stefna VG er ákaflega keimlík. Báðir flokkarnir ætla að innkalla kvótann á 20 árum og með því munu þeir jafna aðgang landsmanna að auðlindinni.

Nú eru útvegsmenn farnir að gagnrýna þetta mjög og vilja enn sem fyrr að við trúum að það gagnist þjóðinni best að þeir fái kvótann á silfurfati, án þess að greiða þjóðinni fyrir hann. Að vísu er þeirra málflutningur einkar bitlaus og vitlaus enda hafa þeir vont mál að verja. Sigurgeir Brynjar í Vinnslustöðinni reið á vaðið. Þuldi upp allskyns tölur um hagnað og tap í útgerð og reiknaði sitt fyrirtæki í þrot á 6 árum ef af þessu yrði. Þar kom meðal annars fram að aðeins stæði eftir 1,9 krónur af hverju kíló sem útgerðirnar veiða þegar búið er að greiða allan kostnað. Þessu eigum við að trúa. Útgerðarmenn sem þóttust vera heimsmeistarar í fiskveiðum og hagkvæmni, svo flinkir að þorskur var orðinn 4200 króna virði áður en hann var veiddur, hagnast aðeins um tæpar 2 krónur á að veiða kíló af fiski. Næstur var Einar Valur hjá Gunnvöru í Hnífsdal. Hann kallar þetta eignaupptöku og þjóðnýtingu. Eignaupptöku, þrátt fyrir að það sé alveg skýrt hverjum læsum manni að úthlutun aflaheimilda myndi ekki eignarétt og að auðlindin sé þjóðareign. Felst ekki eignarupptaka í því að hálfu LÍÚ að ætla að slá eign sinni á það sem þjóðin á? Eða er það bara hreinn og klár þjófnaður? Að auki kallar hann þetta aðför að landsbyggðinni. Var það ekki aðför að Flateyri þegar kvótinn var seldur þaðan? Eða Stöðvarfirði, Breiðdalsvík, Reyðarfirði, Sandgerði? Svo fáir staðir séu nefndir. Þvílíkur hroki og dónaskapur að láta svona útúr sér Einar Valur. Friðrik J. Arngrímsson hótar aðgerðum ef hans umbjóðendur njóta ekki áfram sérréttinda umfram aðra landsmenn. Aðgerðum ef þeir fá ekki áfram úthlutað gæðum fyrir ekki neitt, gæðum sem eðlilegt er að greitt sé fyrir. Og það þrátt fyrir að þeir eigi að njóta sérréttinda næstu 20 árin.

Verði leið Samfylkingarinnar farin verður aðgangur allra landsmanna að fiskveiðum jafnaður og jafnframt komið í veg fyrir brask og byggðaröskun. Engin útgerð ætti að fara í þrot af þessum sökum, þó svo að það sé að sjálfsögðu ekki rekstrargrundvöllur fyrir þá sem aðeins halda eftir skitnum 2 krónum á kíló en hafa þó, eins og ratar, skuldsett sig upp í rjáfur.

Hér er á ferð slíkt réttlætis og byggðamál að nú mega stjórnmálamenn ekki hopa og ég vona að ég megi trúa því sem Jóhanna Sigurðardóttir sagði, að þessi leið verður farin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband