Ja svei!

Nú get ég ekki lengur orða bundist. Málflutningur útvegsmanna og jafnframt hagsmunagæslu aðila þeirra í Sjálfstæðisflokki er með slíkum ólíkindum. Allir sem einn virðast þeir ætla að fara á límingunum yfir því að nú á að setja endapunktinn við áralangt ranglæti sem í kvótakerfinu felst. Með þeim breytingum sem að stjórnarflokkarnir boða verður útgerðarmönnum tryggður aðgangur að auðlindinni til jafns við aðra landsmenn.

 

Nú vantar ekki ófagrar lýsingar á því sem að við tekur, við þá einföldu aðgerð að jafna aðgang allra, fæddra sem ófæddra Íslendinga, að okkar helstu auðlind. Fjöldagjaldþrot, byggðaröskun, launalækkun sjómanna, landsbyggðaskattur og slæm umgengni við auðlindina er vinsælast að tína uppúr hattinum. En alveg láta þeir undir höfuð leggjast að útskýra hvernig þessar miklu hamfarir gætu átt sér stað.

Það er rétt að langstærstur hluti aflaheimilda er á landsbyggðinni og það er alveg öruggt að þrátt fyrir 5% árlega fyrningu verða heimildirnar ennþá á landsbyggðinni. Hvert ættu þær svosem að fara annað? Ekki gufa þær upp og varla flytjast þær allar til Reykjavíkur. Ekki er heldur um að ræða að þetta sé landsbyggðarskattur þar sem að tekjum af leigu aflaheimilda verður ráðstafað til sveitafélaganna. Þá er komið að fullyrðingum um fjöldagjaldþrot og slæma umgengni við auðlindina. Ég læt útgerðarmönnum eftir að útskýra það hvernig þeim er eiginlega varið. Eru þeir slíkir ratar að þeim sé ómögulegt að gera út í samkeppnisumhverfi og er þá ekki betra að fá nýtt fólk inn í greinina? Og eru þeir svo úr garði gerðir að hafi þeir ekki þessi sérréttindi fari þeir að ganga um auðlindina eins og dólgar? Þessu verða þeir sjálfir að svara.

Nú er það svo að fjölda margar útgerðir gera eingöngu út á leigukvóta og slík útgerð gengur árum saman. Veruleg hætta er á að heilu byggðalögin verði að leiguliðum stórútgerðarinnar verði ekki gripið í taumana núna. Verði allur kvóti á markaði þá ráða útvegsmenn sjálfir verðinu, það verður aldrei hærra en þeir ráða við að greiða.

Hættan á fjöldagjaldþrotum er hverfandi, þrátt fyrir slæma skuldastöðu sjávarútvegsins. Forsenda fyrir því að fyrirtæki sé sett í gjaldþrot er að kröfuhafar telji sig hagnast á því. Við fyrningu aflaheimilda skerðast veðin og því verða fyrirtækin og kröfuhafar að finna leið til að lágmarka skaða beggja aðila. Þessi einfalda staðreynd getur bjargað allmörgum illa stöddum fyrirtækjum.

Launalækkun sjómanna er í besta falli hlægileg fullyrðing. Kvótabrask og kvótakaup sjómanna verður úr sögunni og einnig mun afla að mestu verða landað á markað svo útilokað er annað en að sjómenn og einnig fiskverkafólk standi betur eftir þessa leiðréttingu.

 

Báðir stjórnarflokkarnir hafa mótað ákveðna stefnu um hvernig heimildum verði útdeilt. Stefna Samfylkingar er ákaflega einföld og sanngjörn. Þessu verður ekki úthlutað, heldur ræður hæsta boð. Þetta er lang-hagkvæmasta og réttlátasta aðferðin við að útdeila þessu og með því fær eigandinn rétt verð fyrir veiðiréttinn. Byggðaröskun vegna tilflutnings kvóta eins og við höfum séð á undanförnum árum verður úr sögunni.

 

Stórútgerðarmenn þeir sem mest hafa haft sig í frammi undanfarið ættu virkilega að skammast sín. Þeim er boðið að halda sérréttindum næstu 20 árin. En þeir koma fram fyrir alþjóð núna dag eftir dag hagandi sér eins og ofdekraðir og heimtufrekir krakkar grátandi yfir því að njóta ekki sérréttinda sem algjörlega eru óverjandi og brjóta jafnframt mannréttindi á samborgurum þeirra.

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband