13.10.2009 | 03:26
90% lygi
Ég ætla ekki að fara að segja ykkur 10% sannleika núna eins og lesa mætti úr fyrirsögninni. Heldur að stinga aðeins á þessari þrautseigu þvælu kvótavarðanna.
Því er oft haldið fram að 90% allra veiðiheimilda hafi verið keyptar. Varðmenn núverandi kerfis halda þessu ítrekað fram, rétt eins og að það réttlæti kerfið. Þeir eru m.a.s. svo stropaðir að þeir telja kvótann varinn af eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar af þeim sökum. Þrátt fyrir að flestir viti að þetta er röng tala á röngum forsendum og að auki skipti þessi viðskipti engu máli þegar rætt er um hvort kerfið eigi rétt á sér eða ekki ætla ég aðeins að fara yfir þetta.
Ef mig brestur ekki minni til þá var upphaflega sagt að einhver 80-85% veiðiheimilda hefðu skipt um hendur frá upphaflegri úthlutun, þær væru á annarri kennitölu en upphaflega. Þessi tala hækkaði svo fljótt í 90% svo í 95% og svo í nær allar heimildir, rétt eins og að Kalli á þakinu væri að segja frá.
En semsagt þá er þarna verið að tala um að heimildir væru á annarri kennitölu en upphaflega......
Hér eru bara örfá dæmi.
- Bergur-Huginn kt. 560384-0179 1,71% kvótans
- Brim kt. 410998-2629 6,69% kvótans
- FISK-Seafood kt. 461289-1269 4,73% kvótans
- HB-Grandi kt. 541185-0389 9,62% kvótans
- Ísfélagið kt. 660169-1219 2,54% kvótans
- Samherji kt. 610297-3079 5,1% kvótans
- Skinney-Þinganes kt. 480169-2989 2,88% kvótans
- Rammi kt. 681271-1559 4,47% kvótans
- Vinnslustöðin kt. 700269-3299 3,94% kvótans
Eins og þið sjáið eru flestar kennitölurnar þarna síðan 1985 eða síðar, þó svo að fyrirtækin séu eldri en það. Og núna ætla ég aðeins að fjalla um sumar þeirra sem eldri eru.
Ísfélag Vestmannaeyja varð til í núverandi mynd í janúar 1992 við sameiningu Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja, Ísfélags Vestmannaeyja og Bergs-Hugins. Síðar sama ár skildi ein fjölskylda sig frá hinu nýsameinaða fyrirtæki og hófu aftur rekstur Bergs-Hugins.
Skinney-Þinganes varð til í janúar 1999 við kaup Skinneyjar og Þinganes á Borgey. Kennitala Borgeyjar notuð á hið nýja félag.
Þorbjörn. 1. júlí árið 2000 sameinuðust þrjú fyrirtæki á Suðurnesjum. Þorbjörn hf. og Fiskanes hf og Valdimar hf. í Vogum. Og aðeins meira um Þorbjörninn. Þetta er úr sögu þess fyrirtækis.
"Sumarið 1997 færði Þorbjörn hf. enn frekar út kvíarnar með samruna við Bakka hf. úr Bolungarvík og Hnífsdal. Félagið stóð enn styrkari stoðum eftir þetta, því hér var um að ræða eitt stærsta útgerðarfyrirtæki á vestfjörðum. Í kjölfarið urðu þorskveiðiheimildir helmingi meiri."
Ég man ekki betur en að þarna hafi fylgt loforð um að halda áfram starfsemi á Bolungarvík.
Sem sjá má þá er hér ekki um það að ræða að menn hafi notað matarpeningana sína í að kaupa sér kvóta, eða að þeir hafi verið að selja blómabúð eða bílasölu og hafið þannig útgerð. Þessi tala sem á endanum hljóðaði eins og að 90% kvótans hafi verið keyptur er að nær öllu leit fenginn með sameiningum og kennitöluflakki.
Í umræðu annars staðar á netinu þann 21. janúar kom Eiríkur Tómasson með þessa athugasemd og var þá að vísa í þessa færslu. Við Eiríkur vorum sammála um að láta hana koma fram hér enda ætla ég ekki að standa í deilum við hann um sögu fyrirtækisins.
Jón Gunnar Björgvinsson,
Þú skrifar um Þorbjörn hf í bloggi þínu.
Ég sé að þú þekkir ekki til fyrirtækisins, þannig að ég vil aðeins upplýsa þig.Þorbjörn hf var stofnað árið 1953 í Grindavík.
Fyrirtækið hefur aldrei skipt um kennitölu, en fyrirtæki sem voru stofnuð fyrir árið 1970 bera kennitölu sem enda fyrrihlutann á tölunni 69.
Það á enginn af þeim, sem áttu þau fyrirtæki sem þú nefnir að hafi sameinast Þorbirni. hlut í Þorbirni í dag. Núverandi eigendur keyptu hlut þeirra allra.
Þú heldur því fram að lofað hafi verið að hafa starfsemi þar áfram. Þessi fullyrðing er ekki rétt. En samt sem áður hefur verið starfsemi í frystihúsinu sem fylgdi Bakka óslitið síðan sameiningin átti sér stað, og Þorbjörn hf er hluthafi í Bakkavík, sem er þar, og hefur alltaf verið. Einnig er Þorbjörn hf hluthafi í öðru fyrirtæki í Bolungarvík, sem er í útgerð.
Þó að þú sért á móti kvótakerfinu, þá er ágætt að þú byggir umfjöllun þína á réttum upplýsingum.
Það sem ég skrifaði tók ég af heimasíðu Þorbjarnar. Þetta var copy/paste og ég reiknaði með að ég gæti tekið þær upplýsingar trúanlegar. Þar sem ég nefni loforð um að halda fyrirtækinu gangandi á staðnum er ekki fullyrðing ég byggi það bara á samtölum sem ég átti við heimamenn í Bolungarvík þegar ég réri þaðan á 10. áratugnum. Hugsanlega verið misskilningur heimamanna.
Þetta er hluti af grein úr af mbl. síðan 17 júní 1999
Ólafur Kristjánsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, segist ekki halda að Þorbjörn hafi verið að brjóta samninga þegar fyrirtækið dró úr umsvifum og útgerð í bænum. "Aftur á móti héldu þau fyrirheit ekki sem voru gefin þegar Þorbjarnarmenn komu hingað. Ég batt bjartar vonir við að þeir myndu efla útgerð í bænum og varð fyrir sárum vonbrigðum með það hvernig þeir tóku á málum. Nýir eigendur Bakka, Nasco, hafa tekið svolítið aðra stefnu og vonandi gengur það upp," segir hann.
Ólafur segir að leiða megi líkur að því að Þorbjarnarmenn hafi eingöngu komið til Bolungarvíkur til að flytja bolfiskaflann á brott. "Að fenginni reynslu hefði ég frekar kosið að þeir hefðu ekki komið hingað," segir hann.
Félagsleg sjónarmið á undanhaldi
Ólafur segir að þau félagslegu sjónarmið, sem áður hafi ríkt, séu á undanhaldi. "Þeir sem hafa nú yfir fjármunum að ráða vilja auðvitað fá arð af fjárfestingum sínum. Fyrirtæki eru sameinuð og gerð öflugri. Þessi félagslegu sjónarmið sem eitt sinn voru ríkjandi, þegar menn höfðu taugar til sveitarfélaganna og vildu halda uppi fullri atvinnu, eru horfin. Nýju eigendurnir hugsa bara um arðinn og kemur ekkert við hvar fyrirtækið er rekið," segir hann.
Bloggar | Breytt 22.1.2010 kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2009 | 00:01
Nigeríusvindl
Ég ætla svo sem ekkert að fara að bregða útaf vananum og fara að fjalla um eitthvað annað en sjávarútveg. En mér hefur stundum dottið Nígeríusvindl í hug þegar rætt er um fiskveiðistjórnunina. Áður en lengra er haldið tek ég fram að ég er ekki að líkja starfsmönnum Hafró við ótýnda glæpamenn í Nígeríu. En nú kem ég að því sem líkt er með þessu tvennu. Nígeríuglæpamaðurinn byrjar á því að lofa fórnarlambi sínu stórfé aðeins ef fyrst sé látnið af hendi rakna tiltölulega lítið fé. Td. 500 dollarar og þá mun viðkomandi fá svo mikið fé að ekki þurfi að hafa áhyggjur af peningum framar. Svo þegar 500 dollarar eru komnir þá er sagt að nú þurfi að greiða aðeins meira og svo og svo og svo.... þið vitið hvað fylgir. Alltaf fylgja einhverjar skrítnar skýringar. Annaðhvort kom greiðslan of seint, hún var of lág, utanaðkomandi aðstæður breyttust osfrv. Fólk er teymt á asnaeyrunum og ávalt versnar staðan. Og nú eyði ég ekki meiri tíma í að fjalla um þetta svindl.
Í fiskveiðistjórnuninni þá er þessu býsna svipað farið. Og á endanum er búið að taka þjóðina rækilega í ..... já þið vitið hvað ég á við. 1972 þegar við vorum búin að koma tjöllum og öðru slíku óþurftafólki út fyrir 50 mílurnar komu fiskifræðingarnir (og ég minni á að ég er ekki að jafna þeim við afríska glæpamenn en aftur á móti þykir mér eiga vel við að líkja þeim við gullgerðarmenn fyrri alda, þeir töldu sig geta búið til gull úr engu) fram með það tilboð að nú væri lag, úr því að við sætum nú ein að miðunum að stórauka afraksturinn með skynsamlegri nýtingu. Tilboðið var að veiða minna núna til að veiða meira síðar. Síðar það er 37 árum síðar er ennþá verið að bjóða okkur sama bullið, minna í dag til að fá meira síðar.
Stóra planið var að friða smáfisk með skyndilokunum og stærri möskva. Ef smáfiskurinn fengi að vaxa aðeins lengur myndi hann bæta slíku við sig í þyngd að skammt væri þess að bíða að við gætum farið að veiða 500-550 þúsund tonn á ári. Sveiflur í veiðinni myndu að mestu heyra sögunni til og veiðinn aukast úr 438.000 tonna meðalafla í yfir 500.000 tonn(nokkri dollarar í upphafi og engar meiri áhyggjur af fiskleysisárum). Það var nefnilega ekki þannig að það væri verið að bjarga síðasta þorskinum frá bráðum bana, þó svo að 35 árum seinna hafi þurft að skera veiðina niður í skitin 130.000 tonn. Til þess að bjarga honum frá bráðum bana.
Nú virðist að búið sé að teyma stjörnvöld svo lengi á asnaeyrunum að þau sjái ekki lengur fáránleikann við þetta. Ekki hefur svo skort afsakanir gullgerðarmannanna. Nú ætla ég að setja inn dollara í staðin fyrir tonn. Þá hljómar það nokkurn vegin svona. Þú áttir að borga 500 dollara en borgaðir bara 495 svo þetta gekk ekki, verður næst að borga 600 dollara. Þú borgaðir þessa 600 dollara of seint svo þetta gekk ekki, láttu mig fá 100 í viðbót og þá kemur þetta hjá okkur. Og þannig heldur vitleysan áfram. Sama sagan er með Hafró, alltaf er kveinað um að þeirra fyrirmælum hafi ekki verið fylgt. Stjórnvöld hafa þó hlýtt tilmælum hafró mjög náið og síðan aflareglan var tekin upp ´94 er fylgnin um 95%. Síðast núna í sumar, í þættinum útvegurinn á ÍNNTV, hélt Jóhann Hafróstjóri því fram að með því að geyma fisk í sjónum frá 4 til 5 ára aldurs mætti stórauka þyngd hans, um ca 80-100% sagði hann. Í júní 2007 viðurkenndi sami Jóhann að hann vissi ekki eitt tilvik þess að tekist hefði að byggja upp þorskstofn með friðun. Nú er tímabært að hætta að hlusta á vitleysuna sem kemur frá þeim á Skúlagötunni (hrikalegt að nota þessa fínu skrifstofubyggingu á besta stað í svona fíflagang). Þessi stefna gengur ekki upp, það þarf ekki að reyna þetta lengur. Við höfum ekki efni á þessu og ég amk. er löngu búinn að missa húmorinn fyrir þessu. Þetta er ónýtt kerfi, ónýt ráðgjöf og eins óréttlátt og hugsast getur.
Réttast væri að henda þessum bastarði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.9.2009 | 15:41
Er þá eftir einhverju að bíða?
![]() |
Mistök að nýta ekki auðlindirnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2009 | 00:41
Gott að vita, þar hafiði það.
Mikið er gott að vita að Atli vilji ekki kollvarpa sjávarútveginum, og skaða atvinnulíf og byggð í landinu.
Magnaður andskoti að þetta skuli vera frétt. Ég veit ekki um nokkurn mann sem vill kollvarpa útveginum og skaða atvinnulíf og byggð í landinu. Þetta er svo sjálfsagt að þetta á ekki að geta verið frétt.
En þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að slíkt gerist verði fyrningarleiðin farinn geri ég ráð fyrir að Atli hafi alls ekki skipt um skoðun. Nú veit ég að lygasamband íslenskra útvegsmanna (skammstafað líú og má ekki ruglast á því og LÍÚ eða L.í.ú. sem eru aðrar skammstafanir) fer létt með að reikna greinina í þrot á undraskömmum tíma verði fyrningarleiðinn farinn. Þeir þurfa ekki einu sinni að gefa sér neinar forsendur, staðan er það slæm í dag.
Nú er tímabært að menn fari að kynna sér um hvað fyrningarleiðin snýst og hætta að tala um hana sem kollsteypu. Þetta er leiðrétting sem gengur yfir á 20 árum. Það er verið að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindinni og gera yfirvöldum m.a. kleift að bregðast við áliti mannréttindanefndar S.Þ. og að tryggja að heilu byggðarlögin verði ekki gerð nær kvótalaus á einni nóttu.
![]() |
„Pólitískt sjálfsmorð“ að kollvarpa sjávarútveginum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2009 | 23:38
Ætli sólin hætti líka að skína?
Það vantar ekki varúðarorð LÍÚ manna nú um stundir. Allt fer í kaldakol með þessari leiðréttingu. Þó vantar alveg að þeir útskýri hvernig á þessum hamförum stendur. Fjandi auðvelt að slá því fram að bankar fari í þrot og að byggð leggist af, en það er útilokað fyrir þá að rökstyðja þessa þvælu.
Þegar starfsmenn og tækjabúnaður verður aftur orðinn helstu verðmæti útvegsfyrirtækja verður fyrst hægt að tala um atvinnuöryggi sjómanna og fiskverkafólks. Þau verðmæti verða ekki flutt í burtu í einum vettvangi. Þá þurfum við ekki að horfa á aðfarir eins og á Flateyri þegar kvótinn hvarf þaðan í annað sinn. Eða þegar Eskfiðingur einn vildi fara að sýsla með 4000 milljónir í London og í framhaldinu lagðist af bolfiskvinnsla á staðnum.
Engu að síður halda kvótaeigendur því fram að það sé með hagsmuni sjávarþorpanna að leiðarljósi sem þeir vilja óbreytt kerfi.
Það er eins gott að nú standi stjórnarliðar í fæturna og leiðrétti þetta óréttlæti og þessi mannréttindabrot. Ég bíð spenntur eftir að sjá hvað verður á borð borið fyrir okkur á sunnudag.
Gleymum því ekki að mannréttindi verða ekki vegin á skálum hagfræðinnar.
![]() |
Mun setja bankana aftur í þrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.5.2009 | 23:48
Yfirlýsing frá L.í.ú.
![]() |
Fyrningarleið víst farin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2009 | 23:44
Rökþrota útgerð
Eins og við var að búast þá fer nú fram fjörleg umræða um sjávarútvegsmál. Í kjölfar mjög afdráttarlausrar stefnu Samfylkingarinnar sem samþykkt var um kvótamálin. Svo skemmtilega vill til að stefna VG er ákaflega keimlík. Báðir flokkarnir ætla að innkalla kvótann á 20 árum og með því munu þeir jafna aðgang landsmanna að auðlindinni.
Nú eru útvegsmenn farnir að gagnrýna þetta mjög og vilja enn sem fyrr að við trúum að það gagnist þjóðinni best að þeir fái kvótann á silfurfati, án þess að greiða þjóðinni fyrir hann. Að vísu er þeirra málflutningur einkar bitlaus og vitlaus enda hafa þeir vont mál að verja. Sigurgeir Brynjar í Vinnslustöðinni reið á vaðið. Þuldi upp allskyns tölur um hagnað og tap í útgerð og reiknaði sitt fyrirtæki í þrot á 6 árum ef af þessu yrði. Þar kom meðal annars fram að aðeins stæði eftir 1,9 krónur af hverju kíló sem útgerðirnar veiða þegar búið er að greiða allan kostnað. Þessu eigum við að trúa. Útgerðarmenn sem þóttust vera heimsmeistarar í fiskveiðum og hagkvæmni, svo flinkir að þorskur var orðinn 4200 króna virði áður en hann var veiddur, hagnast aðeins um tæpar 2 krónur á að veiða kíló af fiski. Næstur var Einar Valur hjá Gunnvöru í Hnífsdal. Hann kallar þetta eignaupptöku og þjóðnýtingu. Eignaupptöku, þrátt fyrir að það sé alveg skýrt hverjum læsum manni að úthlutun aflaheimilda myndi ekki eignarétt og að auðlindin sé þjóðareign. Felst ekki eignarupptaka í því að hálfu LÍÚ að ætla að slá eign sinni á það sem þjóðin á? Eða er það bara hreinn og klár þjófnaður? Að auki kallar hann þetta aðför að landsbyggðinni. Var það ekki aðför að Flateyri þegar kvótinn var seldur þaðan? Eða Stöðvarfirði, Breiðdalsvík, Reyðarfirði, Sandgerði? Svo fáir staðir séu nefndir. Þvílíkur hroki og dónaskapur að láta svona útúr sér Einar Valur. Friðrik J. Arngrímsson hótar aðgerðum ef hans umbjóðendur njóta ekki áfram sérréttinda umfram aðra landsmenn. Aðgerðum ef þeir fá ekki áfram úthlutað gæðum fyrir ekki neitt, gæðum sem eðlilegt er að greitt sé fyrir. Og það þrátt fyrir að þeir eigi að njóta sérréttinda næstu 20 árin.
Verði leið Samfylkingarinnar farin verður aðgangur allra landsmanna að fiskveiðum jafnaður og jafnframt komið í veg fyrir brask og byggðaröskun. Engin útgerð ætti að fara í þrot af þessum sökum, þó svo að það sé að sjálfsögðu ekki rekstrargrundvöllur fyrir þá sem aðeins halda eftir skitnum 2 krónum á kíló en hafa þó, eins og ratar, skuldsett sig upp í rjáfur.
Hér er á ferð slíkt réttlætis og byggðamál að nú mega stjórnmálamenn ekki hopa og ég vona að ég megi trúa því sem Jóhanna Sigurðardóttir sagði, að þessi leið verður farin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2009 | 23:40
Ja svei!
Nú get ég ekki lengur orða bundist. Málflutningur útvegsmanna og jafnframt hagsmunagæslu aðila þeirra í Sjálfstæðisflokki er með slíkum ólíkindum. Allir sem einn virðast þeir ætla að fara á límingunum yfir því að nú á að setja endapunktinn við áralangt ranglæti sem í kvótakerfinu felst. Með þeim breytingum sem að stjórnarflokkarnir boða verður útgerðarmönnum tryggður aðgangur að auðlindinni til jafns við aðra landsmenn.
Nú vantar ekki ófagrar lýsingar á því sem að við tekur, við þá einföldu aðgerð að jafna aðgang allra, fæddra sem ófæddra Íslendinga, að okkar helstu auðlind. Fjöldagjaldþrot, byggðaröskun, launalækkun sjómanna, landsbyggðaskattur og slæm umgengni við auðlindina er vinsælast að tína uppúr hattinum. En alveg láta þeir undir höfuð leggjast að útskýra hvernig þessar miklu hamfarir gætu átt sér stað.
Það er rétt að langstærstur hluti aflaheimilda er á landsbyggðinni og það er alveg öruggt að þrátt fyrir 5% árlega fyrningu verða heimildirnar ennþá á landsbyggðinni. Hvert ættu þær svosem að fara annað? Ekki gufa þær upp og varla flytjast þær allar til Reykjavíkur. Ekki er heldur um að ræða að þetta sé landsbyggðarskattur þar sem að tekjum af leigu aflaheimilda verður ráðstafað til sveitafélaganna. Þá er komið að fullyrðingum um fjöldagjaldþrot og slæma umgengni við auðlindina. Ég læt útgerðarmönnum eftir að útskýra það hvernig þeim er eiginlega varið. Eru þeir slíkir ratar að þeim sé ómögulegt að gera út í samkeppnisumhverfi og er þá ekki betra að fá nýtt fólk inn í greinina? Og eru þeir svo úr garði gerðir að hafi þeir ekki þessi sérréttindi fari þeir að ganga um auðlindina eins og dólgar? Þessu verða þeir sjálfir að svara.
Nú er það svo að fjölda margar útgerðir gera eingöngu út á leigukvóta og slík útgerð gengur árum saman. Veruleg hætta er á að heilu byggðalögin verði að leiguliðum stórútgerðarinnar verði ekki gripið í taumana núna. Verði allur kvóti á markaði þá ráða útvegsmenn sjálfir verðinu, það verður aldrei hærra en þeir ráða við að greiða.
Hættan á fjöldagjaldþrotum er hverfandi, þrátt fyrir slæma skuldastöðu sjávarútvegsins. Forsenda fyrir því að fyrirtæki sé sett í gjaldþrot er að kröfuhafar telji sig hagnast á því. Við fyrningu aflaheimilda skerðast veðin og því verða fyrirtækin og kröfuhafar að finna leið til að lágmarka skaða beggja aðila. Þessi einfalda staðreynd getur bjargað allmörgum illa stöddum fyrirtækjum.
Launalækkun sjómanna er í besta falli hlægileg fullyrðing. Kvótabrask og kvótakaup sjómanna verður úr sögunni og einnig mun afla að mestu verða landað á markað svo útilokað er annað en að sjómenn og einnig fiskverkafólk standi betur eftir þessa leiðréttingu.
Báðir stjórnarflokkarnir hafa mótað ákveðna stefnu um hvernig heimildum verði útdeilt. Stefna Samfylkingar er ákaflega einföld og sanngjörn. Þessu verður ekki úthlutað, heldur ræður hæsta boð. Þetta er lang-hagkvæmasta og réttlátasta aðferðin við að útdeila þessu og með því fær eigandinn rétt verð fyrir veiðiréttinn. Byggðaröskun vegna tilflutnings kvóta eins og við höfum séð á undanförnum árum verður úr sögunni.
Stórútgerðarmenn þeir sem mest hafa haft sig í frammi undanfarið ættu virkilega að skammast sín. Þeim er boðið að halda sérréttindum næstu 20 árin. En þeir koma fram fyrir alþjóð núna dag eftir dag hagandi sér eins og ofdekraðir og heimtufrekir krakkar grátandi yfir því að njóta ekki sérréttinda sem algjörlega eru óverjandi og brjóta jafnframt mannréttindi á samborgurum þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)