Kvótakerfið.

Hagkvæmni.

 Því er haldið fram að stjórnkerfi fiskveiða á Íslandi sé fyrirmynd annarra þjóða. Alþjóða hafrannsóknaráðið fylgist með vernd og uppbyggingu fiskistofna hér við land og vottar það að veiðar séu sjálfbærar og standist alþjóðlega viðurkennd varúðarsjónarmið. Stuðst er við aflareglu sem kveður á um að aðeins skuli veidd 20% af viðmiðunarstofni þorsks á hverju ári. Það er látið að því liggja að fyrir því séu fiskifræðileg rök, að þetta snúist um afkomu þorskstofnsins. En því fer fjarri. 20% aflaregla miðast við að hámarka arðsemi af veiðunum sem í okkar tilfelli hámarkar hag handhafa aflaheimilda. Þetta miðast ekki við að hámarka arð þjóðfélagsins. Enda hafa engar aðrar þjóðir tekið upp fiskveiðistjórnarkerfi að okkar fyrirmynd.

Mörg stærri sjávarútvegsfyrirtæki eiga fisksölufyrirtæki erlendis. Þessi erlendu fyrirtæki kaupa afurðirnar hér heim á fremur lágu verð og selja svo erlendis með miklum hagnaði. Útgerðirnar fá aflaheimildum úthlutað fyrir smáaura frá ríkinu, kaupa aflann af sínum skipum á hluta þess verðs sem fengist fyrir hann á markaði og greiða slík smánarlaun til fiskverkafólks að jafnvel í atvinnuleysinu fást Íslendingar ekki til starfa. Þessi lági tilkostnaður og mikla arðsemi skýrir hvers vegna útvegsmenn leggja höfuð áherslu á að hafa allt á sömu hendi frá veiðum til endanlegrar sölu erlendis.

Vegna þess ástands sem nú ríkir njóta fyrirtækin undanþágu frá lögum um gjaldeyrisviðskipti. Þrátt fyrir að búa við þessi góðu skilyrði þá, vegna lágs verðs á afurðum, er afkoman svo slök að þessi fyrirtæki eru tekin silkihönskum í bankakerfinu. LÍÚ segir að sjávarútvegurinn þurfi u.þ.b. 100 milljarða afskriftir. Varla er það ofáætlað.

Kvótakerfinu var komið á að pöntun útgerðarmanna. Á fiskiþingi haustið 1983 voru lögð drög að kerfinu. Frumvarp til laga, í anda samþykkta fiskiþings, var lagt fram 9.12.1983 og varð að lögum 20.12.1983. Engar breytingar voru gerðar á frumvarpi Halldórs Ásgrímssonar í meðförum þingsins.

Langstærsti hluti aflaheimilda er í höndum aðila sem fengu kvóta úthlutað 1984. Sú fullyrðing að yfir 80% kvóta sé nú í höndum annarra aðila en fengu hann í upphafi skýrist aðallega af sameiningum fyrirtækja og breytingum á rekstraformi (kennitölubreytingum). Að auki hafa oft á tíðum önnur sjónarmið en hagkvæmni í útgerð ráðið ákvörðunum manna um að auka kvótaeign sína (Jón Steinsson hefur td. útskýrt þetta vel).  

Því er iðulega haldið fram að með auknum veiðum muni verð á afurðum snarfalla. Það er að sjálfsögðu fráleit fullyrðing. Meðalverð á mörkuðum hér heima myndi vissulega lækka þar sem við þyrftum að fara að selja afurðir á markaði sem borga ekki eins vel. En ólíklegt er að þeir kaupendur erlendis sem hæsta verð borga muni greiða minna þrátt fyrir aukna veiði. Aukin veiði á Íslandi er sem dropi í hafið á framboði fisks á heimsmarkaði.

Með samningaleiðinni er verið að festa í sessi forréttindi örfárra og um leið mannréttindabrot á öðrum. Jafnframt er verið að tryggja að bankar og kröfuhafar fái til sín megin hluta arðsins sem fiskurinn skapar. Því miður virðist það vera á öllum sviðum sem ríkisstjórnin tekur hagsmuni banka og fjármagnseigenda framyfir hagsmuni almennings.

Fiskvernd og vísindi.

Til þess að magnstýra fiskveiðum (nota kvótakerfi) af einhverju viti þarf augljóslega að vita þrennt. Stofnstærð, vöxt og afföll. Ekkert af þessu er þekkt. Stofnstærðin er ágiskuð út frá vísitölu sem fundin er út í togararalli og sett inní ósannaða jöfnu sem ávallt er kölluð “stofnstærðarlíkan” því það hljómar svo miklu betur. Inn í þessa jöfnu er svo settur náttúrulegur dauði sem er gefin stærð auk annarra ágiskaðra og gefinna stærða. Ekkert tillit er tekið til vaxtahraða enda er útilokað að vita hver vöxturinn verður næsta árið þó svo nokkuð auðvelt sé að finna hann út aftur í tímann (en það er ekki endilega það sem máli skiptir)

Skip eru á stöðugum flótta undan þorski og svo hefur verið síðan ég hóf sjómennsku 1991. það segir okkur að Hafró er að mæla skakkt. Ef aflasamsetning er ekki í samræmi við útgefin kvóta er augljóst að kolrangt er mælt. Væri einhver vilji til þess að sannreyna nákvæmni mælinga Hafró væri það vandalítið m.a. með því að líta til raunverulegrar aflasamsetningar og svo hversu miklum kvóta er úthlutað í hverjum stofni (má líkja þessu við gross error check). Fiskimenn ættu ekki stöðugt að þurfa að flýja þorskgengd eða að standa í brottkasti og framhjálöndun.

Að auki er ekki vitað hversu mikill raunverulegur ávinningur er að því að byggja upp mjög stóran þorskstofn hér við land þar sem útilokað er að meta áhrif mjög stórs þorskstofns á viðgang annarra stofna svo sem, ýsu, ufsa, síldar og rækju.

Nú á nýhöfnu fiskveiðiári eru þegar farnar að berast sögur af útgerðum sem eru farnar að segja upp sínum starfsmönnum. Á atvinnuleysið er ekki bætandi. Þetta stafar fyrst og fremst af stórkostlegum niðurskurði á kvóta einu sinni enn. Ýsukvótinn hefur verið skorinn niður á örfáum árum um meira en helming. Það skorti ekkert á að Hafró hældi sér fyrir góðan árangur í uppbyggingu ýsunnar á árunum 2003-2007. En þeir virðast ekki telja það sína sök að aflinn hrynji jafn skart aftur( enda er um náttúrulega sveiflu að ræða  rétt eins og þegar stofninn óx). Sannarlega má segja að stækkun ýsustofnsins og svo hrun hans afsanni allar kenningar Hafró um að það þurfi að byggja upp stóran hrygningarstofn til þess að tryggja góða nýliðun. Í ýsunni leiddi risastór stofn til risa falls í stofninum.

Í kringum 1970 ruddust fiskifræðingar Hafró fram á sjónarsviðið og lofuðu stjórnmálamönnum mun betri og jafnari afla yrði þeirra ráðgjöf fylgt. Á þeim tíma var árlegur meðalafli um 440.000 tonn. Áætlunin snérist um að friða 3 ára fisk og leyfa honum að vaxa þar til hann yrði 4 ára og eldri. Skiljanlega féllu stjórnmálamenn fyrir slíku kostaboði. Uppbyggingin hófst árið 1972 þegar erlendum togurum var komið út fyrir 50 mílur, möskvastærð í botnvörpum var aukinn og jafnframt var gripið til skyndilokanna til friðunar á smáfiski. Árið 1976 varð annar áfangasigur í þessari baráttu með tilkomu 200 mílna lögsögu og skrapdagakerfis og svo loks árið 1983 þegar kvótalögin voru samþykkt. Eðlilegt er að spyrja um ástand þorskins á þessum tíma. Var þörf á þessari friðun? Því var nú þannig farið að í lok hinnar gríðarmiklu “rányrkju” á árunum 1950 til 1972 var stofninn í betra ástandi til að viðhalda sér en hann hefur vanalega verið. 1973 árgangurinn er talinn vera sá stærsti nokkurn tímann og sá síðasti af stóru árgöngunum til að koma að fullum þunga inní veiðina. 1976 árgangurinn var líka talinn gríðarlega stór og er jafnframt fyrsti stóri árgangurinn sem naut friðunar. Hann koma aldrei fram í veiðinni nema sem meðalárgangur og eftirá var ákveðið að hann hafi aldrei verið sérstaklega stór. 1981 og 1982 voru metaflaár á Íslandi, afli á vertíð suðvestanlands var um 115.000-135.000 tonn ársaflinn fór í 460.000 tonn. Aflabrögð voru mun síðri árið 1983 m.a. vegna friðunaraðgerða og ætisskorts. Það var talið til marks um að stofninn væri kominn að fótum fram og því yrði að bregðast skjótt við. Í kjölfarið komu útgerðarmenn kvótakerfinu á.

Eftir þessa stórkostlegu friðun og uppbyggingu í áratugi var kvótinn kominn niður í 130.000 tonn árið 2007. Enn er ekki spurt hvort forsendurnar séu réttar eða rangar. Í dag eftir að kvótinn hefur verið aukinn í 160.000 tonn erum við aðeins 400.000 tonn frá settu marki!

Nýting náttúruauðlinda.

 Ofveiði er í raun óskilgreint hugtak og ekki er vitað um nokkurn fiskistofn sem hefur hrunið sökum veiða. Á það jafnt við um þorskinn við Nýfundnaland 1992, síldina við Ísland 1968 eða fiskistofna við strendur Evrópu í dag. Afar fátt bendir til að veiðar hafi þar haft afgerandi áhrif. T.d. er algjörlega útilokað að veiðar eigi sökina á lægri sjávarhita eins og raunin var við Nýfundnaland. Enn er mönnum samt tíðrætt um ofveiði og yfirleitt fylgir tali um ofveiði sú ályktun að aðrir en “ég” megi alls ekki veiða fisk.

Svo virðist sem aflamarkskerfinu hafi verið komið á sökum fákunnáttu eða þá með blekkingum. Sá ráðherra sem innleiddi kerfið kom með því stórkostlegum auðæfum í hendur fjölskyldu sinnar og braut um leið mannréttindi á þegnum landsins. Þessu má trúlega aðeins líkja við “Teapot dome” hneykslið í Bandaríkjunum á 3. áratug síðustu aldar. Munurinn er hins vegar sá að Albert Fall innanríkisráðherra Bandaríkjanna fór í fangelsi (en okkar maður fékk banka og fínustu eftirlaun).

Nýting orkuauðlinda og fiskveiðar eru gjörólíkar. Við fiskveiðar skapast umfram arður vegna nýtingar auðlindarinnar á sama tíma og ekki er til fjármagn til þess að virkja orkuauðlindir. Því er með öllu órökrétt að ætla sér að nota sömu reglur við úthlutun réttinda til nýtingar á þessum auðlindum. Einnig eru þessar auðlindir ósambærilegar hvað það varðar að vel er hægt að selja fiskiskip og búnað milli landa eða landshluta breytist forsendur í rekstri.

Því miður virðist Ísland vera undir sömu sök selt og fjöldi annarra þjóða sem ríkar eru að náttúruauðlindum. Mannréttindi eru lítils virt í þessum ríkjum, hagsmunaöfl véla með auðlindir og misskipting og spilling er viðvarandi. Þó ekki þurfi að leita lengra en til Noregs til að sjá hvernig ríkar náttúruauðlindir séu nýttar þjóðinni til hagsbóta þá hafa íslensk stjórnvöld leitað lengra að fyrirmynd, jafnvel allt suður í Persaflóa.


En hvað um mannréttindi á Íslandi?

Ekki hefur enn verið brugðist við áliti mannréttindanefndar SÞ síðan 2007. En stjórnvöld þykjast ætla að láta af mannréttindabrotum hér á landi (bara seinna samt, ætla að koma með áætlum um hvernig þau gera það í haust ). Má líta á komu Pillay sem áminningu fyrir stjórnvöld að láta af frekari brotum hér?
mbl.is Opinn fundur um mannréttindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atkvæðagreiðsla og hvað svo?

Eðlilegt er að spyrja sig hvort óhætt sé að kjósa um stjórn fiskveiða. Margir segja að ekki eigi að breyta því sem að vel gengur. Aðrir óttast stjórnleysi og ofveiði verði lög þessi felld úr gildi.

Hvað mun gerast verði núverandi lög um stjórn fiskveiða felld úr gildi? Í fyrsta lagi geta landsmenn verið rólegir þar sem þetta þýðir ekki óstjórn og ofveiði. Ennþá yrðu í gildi lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og samkvæmt þeim er hægt að stjórna hvaða veiðarfæri má nota hvar og hvenær. Jafnframt því má setja reglur um möskvastærð og annað er þurfa þykir. Því þarf ekki að óttast stjórnleysi. Að auki má geta þess að þrátt fyrir að við búum yfir afar fullkomnum og afkastmiklum skipum þá er fiskiskipaflotinn orðinn ansi rýr svo sem sjá má að hve mikill kvóti er vannýttur ár eftir ár. Þess vegna hef ég engar áhyggjur af því að að stofnar yrðu ofveiddir þrátt fyrir að lögin yrðu felld úr gildi.

 Þess ber líka að geta að engin fiskistofn hefur verið ofveiddur svo vitað sé. Viti lesendur betur bið ég um upplýsingar um það. Þau dæmi sem oftast eru nefnd um ofveiði eru þorskurinn við Nýfundnaland og hrun síldarinnar við Ísland á 7. áratugnum. Hvað varðar þorskin við Nýfundnaland þá er vitað að það urðu miklar breytingar í náttúrunni og fiskurinn hvarf, þrátt fyrir að aðeins hafi verið veidd 20% af áætlaðri stofnstærð þar. Aflabrögð höfðu hinsvegar aldrei verið betri en árið ´92 sem var síðasta árið sem veiði var stunduð þar og slíkt bendir sannarlega ekki til þess að um ofveiði hafi verið að ræða. Annars bendi ég áhugasömum lesendum á síðu Jóns Kristjánssonar; fiski.blog.is. Síldin okkar blessuð átti að hafa verið ofveidd af 30 metra löngum bátum með fremur frumstæðum fiskleitartækjum, 6-700 ha vélum, þeir voru án hliðarskrúfu og notuðust við afar litlar síldarnætur. Þar voru heldur engin ummerki ofveiði. Síldin kom eitt árið og mokveiði var en árið eftir kom hún ekki. Ekkert nýtt við það, svona er hún dyntótt. Fjöldi skipstjóra sem voru við veiðar þarna segja auk þess að þeir hafi heldur betur séð til síldar þeir hafi bara ekki átt möguleika á að ná henni með þeim búnaði sem þeir réðu yfir. 

Í mínum huga er enginn vafi á því að óhætt sé að kjósa um lög þessi. Fjarri sanni er að segja að okkur vegni vel með núverandi stjórn fiskveiða. Útgerðin á hausnum og aflaheimildir í lágmarki. Þrátt fyrir að veiðar gangi afar vel þá virðist "líkan" (er reyndar bara jafna, en það hljómar betur að kalla jöfnuna stofnstærðarlíkan) Hafró ekki verða vart við þessa fiskgengd. Því er óhætt að segja að illa hafi gengið og engin ástæða til að halda áfram á sömu braut.

Að ógleymdu þá eru mannréttindi fótum troðin og ekki hirt um jöfnuð og atvinnufrelsi í landinu.

Nú fremur en nokkurn tímann þurfum við á auðlindum okkar að halda.

Stöndum vörð um rétt okkar og auðlindir. Stöndum vörðu um atvinnufrelsi og jafnræði í landinu. Nú er um að gera að fara inná http://thjodareign.is  skrá sig á listann þar og krefjast atkvæðagreiðslu um núverandi kerfi. Stöndum saman og tryggjum yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum. Þær eru sameign okkar og á ekki að framselja til einkaaðila.


mbl.is Samfylkingin vill þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnunarkerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er lag.

Það er einfalt að leyfa frjálsar krókaveiðar. Þá þarf ekki að mismuna neinum og ekki að eyða löngum stundum í að velta fyrir sér úthlutun á heimildunum. Svo væri sjálfsagt að ríkið legði gjald á landaðan afla og hefði þar með einhverjar tekjur af þessu.

Það væri allavega góð byrjun að taka allar þessar fífla takmarkanir af fyrirhuguðum strandveiðum. Óskiljanlegt að leyfa handfæraveiðar en jafnframt að gera þær eins óarðbærar og hugsast getur með kolvitlausum reglu.

En allavega er stjórnin á réttri leið í þessu. Kemst þó hægt fari (vonandi)


mbl.is Athugað hvort hægt er að auka aflaheimildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins góðar fréttir.

Það er full ástæða til að óska Jóni Bjarnasyni og ríkisstjórninni til hamingju með þetta. Gott að þau létu ekki stöðva sig í þessu máli. Viðbrögð SA eru með ólíkindum. Hvernig geta auknar aflaheimildir ógnað stöðugleikasáttmálanum? Það er augljóst hverra hagsmuna þau gæta.

Það er við ramman reip að draga fyrir ríkisstjórnina að gera breytingar á þessu handónýta fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Ekki aðeins er við LÍÚ að eiga heldur líka flesta þingmenn sjálfstæðis og framsóknarflokks sem og SA og að ógleymdu þá er Arnar Sigurmundsson formaður Landsamtaka lífeyrissjóða en sem kunnugt er þá er hann einn harðasti kvótasinni landsins.

Margir hafa áhyggjur af því að kerfisbundið sé verið að ofveiða stofninn. En hver getur sagt til um það hvað má veiða úr stofni af óþekktri stærð? Hingað til hefur það ekki gert okkur nokkurt gagn að fara að ráðum Hafró. Ég man ekki eftir mótmælum LÍÚ vegna úthlutunar á skrápflúru þar var ráðgjöfin 200 tonn og aflamark 920 tonn! Það er víst heldur meira en 80%. Fiskveiðiárin 2000/2001 og 2001/2002 var veitt 30% og svo 50% umfram ráðgjöf í ýsu allt með velþóknun og vilja LÍÚ og það sem meira er að það varð upphafið að mestu ýsuveiði síðan byrjað var að stjórna veiðum hér við land. Í kjölfar "ofveiðinnar" þessi ár kom 2003 árgangurinn sem er sá sterkasti sem við höfum séð og hélt uppi ýsuveiðinni á síðustu árum. Reyndar afsannaði Hafró eigin kenningar í ýsunni. Við fengum risastóran ýsustofn og þar með stóran hrygningarstofn í ýsu en allt kom fyrir ekki það þurfti aftur að draga úr veiðinni þegar ´03 árgangurinn datt út. Semsagt stór hrygningarstofn þýðir ekki endilega góð nýliðun.

Mikið ég hlakka til að komast á skötuselsveiðarnar í ár og á eftir að greiða leigu til þjóðarinnar með mikilli ánægju. Það er gaman að eiga bát í dag:)

 Sýnum viljann í verki. www.thjodareign.is 


mbl.is Skötuselsfrumvarp að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í sjónvarpinu á þriðjudögum

eru virkilega skemmtilegir þættir um Alfreð Elíasson og Loftleiðaævintýrið. Síðasti þáttur af þrem verður sýndur á morgun. Ég mæli með því að þeir sem misstu af þáttunum reyni að komast yfir þá, þeir eru vel þess virði. Í fyrsta þætti var fjallað um viðtökur Flugfélags Íslands þegar Alfreð og félagar komu heim með sína fyrstu flugvél. Flugfélagið vildi tryggja að þessir ungu menn færu ekki í samkeppni við sig. Ég fullyrði að flugheimurinn væri ekki svipur hjá sjón í dag tekist hefði að stoppa þá Loftleiðamenn af. Eða ef stjórnvöld hefðu sagt að í þessu fámenna og fátæka landi myndu ekki tvö flugfélög bera sig og F.Í. hefði einkarétt, byggt á reynslu síðustu ára, á öllu flugi á landinu en að sjálfsögðu mættu Loftleiðamenn nýta sér atvinnufrelsi sitt og kaupa eða leigja flugleiðir af Flugfélaginu. Ætli Loftleiðir hefðu náð flugi ef þeir hefðu þurft að borga F.Í. 50%-80% af innkomu í leigu af flugleiðum?

Þetta er fínasta mæting á fundinn fyrir austan og ekki að undra. Fínt veður og gott tilefni til að sýna sig og sjá aðra og verið að fjalla um mál sem skiptir alla íbúa landsins, ekki bara Eskfirðinga, miklu máli. Ekki hef ég þó trú á að allir 140 fundarmanna séu á móti breytingum á kvótakerfinu, andúðin við kvótakerfið hefur alltaf verið mikil á landsbyggðinni. Ég hef litla trú á að Eskfirðingum finnist kvótakerfið svo æðislegt. Að vísu skaffar Eskja góð störf við uppsjávarvinnslu en þeir leigja allan annan kvóta frá sér, hvert kíló. Ekki er staðan betri á Reyðarfirði þar sem varla nokkur útgerð er lengur, ég held að það sé ein trilla þar sem fær fáeinum tonnum úthlutað árlega.

Það er mikið um það fjallað í áróðursstríði því sem nú fer fram hversu mikið sé búið að fjárfesta í uppsjávarvinnslu fyrir austan. T.d. hefur Grandi byggt upp glæsilega vinnslu á Vopnafirði og Ísfélag Vestmannaeyja er með öfluga vinnslu á Þórshöfn. Og okkur er sagt að íbúar þessara staða eigi að óttast breytingar á kerfinu. En það er nú öðru nær, þó að kerfinu verði breytt fara þessar verksmiðjur ekkert í burtu í þessum breytingum felst raunar aukið atvinnuöryggi fyrir íbúa þessara byggða. Eins og sjá má á bolfiskvinnslu Eskju þá getur atvinnan horfið bara af því að það hentar að leigja eða selja burt kvótann. Enda eru mestu verðmætin í dag í kvótanum. Með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru munu verðmætin aftur verða í stafsmönnum, skipum og fasteignum. Og starfsfólk og fasteignir eru ekki bara leigt eða selt í burt, eru ekki bara tölur á blaði. Og í rauninni dettur engum í hug að latteþambandi íbúar í 101 kaupi til sín allar heimildir, eða að kvótinn fari upp til guðs. Heimildirnar hverfa ekki, við hættum ekki að veiða og vinna fisk. Geti núverandi handhafar kvótans ekki gert út í nýju umhverfi þá verða örugglega einhverjir til þess að taka við og nýta húsin og fólkið. Miðað við hrákasmíð Deloitte um áhrif fyrningaleiðar þá fara að vísu margir á hausinn, enda létt verk og löðurmannlegt að reikna ofurskuldsett fyrirtæki í þrot. Þar segir víst að þó ekki yrði innheimt nema 10 kr á kíló á þoli útgerðin það ekki. Ég spyr þá hvort ekki sé kominn tími á að fá nýja menn í greinina? Það fer illa með hvaða grein sem er að hafa slíkar hömlur á innkomu í hana og viðgengst í sjávarútvegi.

En skiljanlega er fólk uggandi um sinn hag. Enda hóta útvegsmenn öllu illu ef af þessu verður. Hóta að sigla flotanum í land. Hóta að taka kostnaðinn af leigu aflaheimilda af starfsfólki sínu. Þeir eru raunverulega að hóta því að stela launum starfsmanna sinna fái þeir ekki sínu framgengt. Ekki skrýtið þar sem þeir voru svo fjandi nærri því að takast að stela auðlindinni af okkur. En það er svo sannarlega ekki gert ráð fyrir að breytingar á kerfinu eigi að kosta launþega kjaraskerðingu. Samningar eru í gildi og eftir þeim á að fara og að auki hefur samfylkingin á sinni stefnuskrá að allur fiskur verði seldur á fiskmarkaði. Og það er mikil kjarabót fyrir sjómenn.

Ég fjallaði um það hér í annarri færslu aðeins neðar hvað fyrningin raunverulega þýðir fyrir útgerðina og er því ekki að endurtaka það.

Á því er enginn vafi að kvótakerfið hefur algjörlega brugðist. Afli er brot af því sem hann var áður, skuldir útgerðarinnar eru meiri enn nokkru sinni fyrri og allt logar í illdeilum. Hvaða ástæðu höfum við til þess að halda áfram á sömu braut?


mbl.is Fjölmenni á fundi um fyrningarleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótaleiga.

Eins og ég hef áður sagt tel ég þetta frumvarp einu afsökun fyrir veru Jóns Bjarnasonar í ráðuneytinu. Þrátt fyrir að það sé fjarri því að vera gott þá er það til mikilla bóta. Auðvitað hefði hann átt að sleppa því að kvótabinda skepnuna.

Skötuselurinn stendur fjandi þvert í sjálfstæðis- og LÍÚ mönnum. Þar snýst deilan í raun bara um eignarhaldi á kvótanum. Aflamark í skötusel hefur verið flutt á milli skipa í miklu magni og svo dæmi sé tekið af fiskveiðiárinu 06/07 þá var úthlutað 3000 tonna aflamarki en 3138 tonn voru flutt á milli skipa. Það hefði nú verið munur fyrir kvótahafana ef kvótinn það ár hefði verið 4500 tonn. Því er ekki forsvaranlegt að úthluta þessu núna byggt á aflahlutdeild. Hvað varðar þau áform að veiða 80% umfram ráðgjöf þá er það án vafa mjög ábyrg ákvörðun hjá ráðherra. Í fyrsta lagi liggur alveg fyrir að Hafró hefur engin gögn til að byggja ráðgjöfina á en leggja til í varúðar skyni  að ekki sé meira veitt en 2500 tonn. Þetta er bara skot útí loftið hjá þeim. Þetta er augljóst merki þess að stjórnvöld séu að gera sér grein fyrir að lítið er gefandi fyrir góð ráð Hafró.

Einar Kristinn sýndi enn og aftur úr hverju hann er gerður. Talaði fyrir hagsmunum stórútgerðar en bar fyrir sig umhyggju fyrir einstaklingsútgerð.  Sú takmörkun sem verið er að gera td. á geymsluheimild er býsna áhugaverð. Auðvitað dregur það úr hagkvæmni að fá ekki að flytja afla á milli ára. Einar K. jók þetta hlutfall fyrir fáeinum árum vegna þess ósamræmis sem var í aflaheimildum og aflabrögðum. Þegar Hafró einu sinni sem oftar hafði talið skakkt var ekkert samræmi í hvað kom í veiðarfærin og þess sem var úthlutað. Í þeirri lofgjörð sem á sér stað um hagkvæmni kvótans gleymist það nefnilega að hagkvæmast er að veiða það sem kemur hverju sinni í veiðarfærin. Þegar Hafró reiknar skakkt fara menn að veiða með mun meiri tilkostnaði þar sem þeir þurfa að eltast við fyrirfram ákveðna aflasamsetningu.

Í annarri frétt á mbl.is um sama mál var þetta.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi það harðlega að ekki ætti að eyrnamerkja fjármunina sem auknar fiskveiðiheimildir muni skila í ríkiskassann sérstaklega í atvinnuuppbyggingu í sjávarútvegi á landsbyggðinni.

Skil ég það rétt að hann sé að stinga uppá að úr því að núverandi handhafar kvótans fái þessu ekki úthlutað skuli í guðs blessuðum bænum nota aurinn í ríkisstyrki þeim til handa? Það væri gaman að vita í hvaða verk ætti að úthluta slíkum styrkjum.


mbl.is Segir frumvarpið ógna stöðugleikanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk Hafró.

Þetta er glæsilegt hjá Hafró. Sendu út skip til að finna loðnu og þeir fundu hana. Auðvitað er útilokað að þeir hafi mælt of lítið, það myndu þeir aldrei gera og því er bara sénslaust að leyfa veiði á meiru en 130 þúsund tonnum.

Burtséð frá því hvort við eigum að  friða eða ekki friða loðnuna sem er allt annað mál þá vil ég vekja athygli á góðum árangri hinna gríðarflinku fisktalningamanna Hafró.

Iðulega hafa fræðingarnir kennt umframveiði, sem stjórnmálamenn hafa heimilað, um að ekki hafi tekist að "byggja" upp stofnana en hvað loðnuna varðar þá er því ekki fyrir að fara. Þar hefur verið haldið fast við þá reglu, sem að vísu er út í loftið, að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar.

Því miður þá hefur það alls ekki gefist vel að hlíta ráðgjöf Hafró. Þeir stofnar þar sem fylgnin við þeirra ráð hafa verið hvað best eru; loðna, rækja, hörpudiskur og þorskur undanfarinn 15 ár. Og hvernig hefur tekist til? Hörpudiskveiðar eru ekki lengur stundaðar. Rækjuveiðar eru víðast bannaðar en mjög takmarkaðar veiðar eru stundaðar á úthafsrækju og í Arnarfirði. "Uppbygging" þorskstofnsins skilar í dag 150 þús tonna ársafla í staðinn fyrir 400-500 þúsund tonna afla fyrir uppbyggingu. Loðnan skilar litlu sem engu, í dag má veiða 130 þúsund tonn en oft áður voru veidd 700 þúsund tonn og þaðan af meira. Sé það rétt að loðnan geti núna gefið 8 milljarða þá sjáum við hvað 6 sinnum meiri veiði myndi gefa okkur.

Hrognkelsi er svo nytjastofn hér við land sem Hafró hefur ekki verið að skipta sér af, sem betur fer. Þar er það bara náttúran og markaðurinn sem stjórna. Grásleppusjómenn, þó skrýtnir séu á stundum, vilja helst ekki vera að veiða fisk sem ekkert fæst fyrir. Þess vegna takmarka þeir sjálfir veiðina við það sem markaðurinn tekur við. Ekki er að sjá að sú gráa þoli illa að vera ekki undir handjaðri Hafró, stofninn virðist vera í fínu standi. Raunin hefur verið sú að það hefur verið frjáls sókn í grásleppu  mörg undanfarin ár. Þau leyfi sem til eru hafa ekki verið nýtt svo það er einfaldlega markaðurinn sem takmarkar veiðina. Það er all svakalegt að samkvæmt þessu fær frjáls sókn mun hærri einkunn en ráðgjöf Hafró.

Er ekki sjálfsögð krafa að menn sem látast vita hvað er mikið af fiski í sjónum upplýsi okkur um hvers vegna afraksturinn sé svona arfaslakur í dag? Hvað hefur eiginlega gerst í lífríkinu? Það er ekki ásættanlegt að þeir segi bara að það sé ekki hægt að veiða meira og útskýri það ekkert frekar. Það er fásinna að kalla það ábyrga afstöðu hjá Jóni Bjarnasyni að lofa því að veiða aðeins 20% af því magni sem Hafró segir að sé í hafinu, það veit enginn hve mikill þorskur syndir hér umhverfis landið.

Ég er ansi hræddur um að ástæðan fyrir því að lítið að loðnu skili sér til hrygningar ár eftir ár sé ónóg veiði á þorski og öðrum fiski hér við land. Loðna sem elst upp fyrstu tvö árin fyrir norðan land sé einfaldlega étin áður en hún fer norður í höf í ætisleit. Sé það reyndin þá er það hrikalegt slys því við megum ekki við því að missa af þeirri orku sem loðnan flytur inní lífríkið hér við land. Sem kunnugt er þrefaldar loðnan þyngd sína þegar hún fer í ætisleit norður í höf. Hér er ágæt lesning um loðnu af síðu Jóns Kristjánssonar fiskifræðings http://fiski.blog.is/blog/fiski/entry/450703/.

 Hvað sem því öllu líður gleðst ég með sjómönnum og útvegsmönnum að mega loksins halda til veiða.


mbl.is Loðnan gæti gefið 8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setur fyrningarleiðin útgerðina á hausinn?

Já að minnsta kosti ef flotinn verður bundinn við bryggju í mótmælaskyni.

Mér sýnist nú vera ákaflega létt verk að reikna útvegin í þrot eins og staðan er í dag. Stór hluti kórfélagana er nú þegar á hausnum.

 Sé það rétt að ekki megi hrófla við núverandi kerfi án þess að setja greinina á hliðina, m.a.s bara það að nefna breytingar setji allt í uppnám segir okkur að í raun séum við orðnir fangar kvótakerfisins. Hafa þá vopnin heldur snúist í höndum okkar. Hvernig má það vera að grein sem búið hefur við besta stjórnkerfi heims í 26 ár sé svo illa stödd? Getur verið að eftir að hafa búið við slíkan lúxus í aldarfjórðung þoli greinin ekki nokkra breytingu? Er þá ekki hugsanlegt að kerfið sé kannski ekki svo gott? Er það kannski rétt að það séu bara grínistar sem reka sjávarútveginn?

Það er helvíti hart að hugsa til þess að grínistarnir hafi þá komið okkur í skuldaánauð erlendra sem innlendra lánadrottna. Til hvers var verið atast í Bretum og öðrum Evrópuþjóðum á síðustu öld ef útkoman varð bara sú að í stað þess að þeir veiði fiskinn hér og sigli með hann heim til sín að þá veiðum við núna fiskinn sendum þeim hann og þeir hirða svo arðinn í formi vaxta? Er Íslendingum alls varnað?

Hefjist innköllun aflaheimilda á næsta ári þá setur það alveg örugglega ekkert þokkalega vel rekið fyrirtæki á hausinn. Verði 5% boðin upp og verðið á kvótanum nálægt 20% af markaðsvirði aflans eins og stendur til að leigja skötuselsheimildirnar á þá þýðir það að útgerðin verður að borga 1 heilt prósent af tekjum í leigu. Annað prósent árið eftir. Ég hefði svarið fyrir að bestu útgerðarmenn í heimi færu létt með það.

Svo er það þessi makalausa fullyrðing að kórinn fari allur á hausinn, hún bara stenst ekki. Hvernig í ósköpunum er hægt að halda annarri eins vitleysu fram þegar fólk er að reyna að ræða alvöru mál? Setjum sem svo að þrjú stærstu fyrirtækin fari lóðbeint í þrot, sem ég vona svo sannarlega að gerist ekki, þá losnar um 20% kvótans við það. Það getur ekki annað verið en að það gagnist þeim sem eftir standa. Allir í þrot fullyrðingin er út-úr-kú.


mbl.is Vara við fyrningarleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á skötuselinn?

Fulltrúum LÍÚ fannst þetta vera fín afsökun til að hleypa starfi nefndarinnar í uppnám. Fari endurskoðunarnefndin ekki að skila niðurstöðu þarf einfaldlega að slíta henni og þá útfæra stjórnvöld fyrningarleiðina .

 En hvað skötuselin varðar þá gildir alls ekki það sama um kvótasetningu hans og sumra annarra stofna. Ráðherra virðist ætla að leyfa veiði á 4500 tonnum af skötusel á þessu ári. LÍÚ telur sig eiga fullt tilkall til þess magns. En tilfellið er nú að þegar skötuselurinn var kvótasettur var veiðireynsla útgerðanna um 1000 tonn og kvótinn var ákvarðaður 1500 tonn. Það var ekki um það ræða að verið væri að takamarka veiðina. Nei það var verið að úthluta ákveðnum aðilum heilmiklum verðmætum.

Varðandi þá ákvörðun að veiða 80% umfram ráðgjöf þá tel ég það mjög skynsamlegt. Ráðgjöfin byggir nefnilega ekki á neinum vísindum eða gögnum. Hafró veit afar lítið um stofninn og mælir með 2500 tonna takmörkun í varúðarskyni. Til hvers ættum við að vera friða skötuselin? Eigum við að fara að byggja upp risastóran skötuselsstofn með friðunum? Hefur einhverjum tekist að byggja upp stofn með friðunum? Svarið er stutt og einfalt NEI. Enn sem komið er hafa veiðar ekki haft neikvæð áhrif á skötuselsstofninn og þess vegna á að veiða hann. Við höfum, rétt eins og brjálæðingar, hlýtt ráðgjöf Hafró í 38 ár með hrikalegum afleiðingum. Við skulum bara veiða þennan stofn áhyggjulausir.


mbl.is Skötuselur truflar enn störf sáttanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband