7.10.2009 | 00:01
Nigeríusvindl
Ég ætla svo sem ekkert að fara að bregða útaf vananum og fara að fjalla um eitthvað annað en sjávarútveg. En mér hefur stundum dottið Nígeríusvindl í hug þegar rætt er um fiskveiðistjórnunina. Áður en lengra er haldið tek ég fram að ég er ekki að líkja starfsmönnum Hafró við ótýnda glæpamenn í Nígeríu. En nú kem ég að því sem líkt er með þessu tvennu. Nígeríuglæpamaðurinn byrjar á því að lofa fórnarlambi sínu stórfé aðeins ef fyrst sé látnið af hendi rakna tiltölulega lítið fé. Td. 500 dollarar og þá mun viðkomandi fá svo mikið fé að ekki þurfi að hafa áhyggjur af peningum framar. Svo þegar 500 dollarar eru komnir þá er sagt að nú þurfi að greiða aðeins meira og svo og svo og svo.... þið vitið hvað fylgir. Alltaf fylgja einhverjar skrítnar skýringar. Annaðhvort kom greiðslan of seint, hún var of lág, utanaðkomandi aðstæður breyttust osfrv. Fólk er teymt á asnaeyrunum og ávalt versnar staðan. Og nú eyði ég ekki meiri tíma í að fjalla um þetta svindl.
Í fiskveiðistjórnuninni þá er þessu býsna svipað farið. Og á endanum er búið að taka þjóðina rækilega í ..... já þið vitið hvað ég á við. 1972 þegar við vorum búin að koma tjöllum og öðru slíku óþurftafólki út fyrir 50 mílurnar komu fiskifræðingarnir (og ég minni á að ég er ekki að jafna þeim við afríska glæpamenn en aftur á móti þykir mér eiga vel við að líkja þeim við gullgerðarmenn fyrri alda, þeir töldu sig geta búið til gull úr engu) fram með það tilboð að nú væri lag, úr því að við sætum nú ein að miðunum að stórauka afraksturinn með skynsamlegri nýtingu. Tilboðið var að veiða minna núna til að veiða meira síðar. Síðar það er 37 árum síðar er ennþá verið að bjóða okkur sama bullið, minna í dag til að fá meira síðar.
Stóra planið var að friða smáfisk með skyndilokunum og stærri möskva. Ef smáfiskurinn fengi að vaxa aðeins lengur myndi hann bæta slíku við sig í þyngd að skammt væri þess að bíða að við gætum farið að veiða 500-550 þúsund tonn á ári. Sveiflur í veiðinni myndu að mestu heyra sögunni til og veiðinn aukast úr 438.000 tonna meðalafla í yfir 500.000 tonn(nokkri dollarar í upphafi og engar meiri áhyggjur af fiskleysisárum). Það var nefnilega ekki þannig að það væri verið að bjarga síðasta þorskinum frá bráðum bana, þó svo að 35 árum seinna hafi þurft að skera veiðina niður í skitin 130.000 tonn. Til þess að bjarga honum frá bráðum bana.
Nú virðist að búið sé að teyma stjörnvöld svo lengi á asnaeyrunum að þau sjái ekki lengur fáránleikann við þetta. Ekki hefur svo skort afsakanir gullgerðarmannanna. Nú ætla ég að setja inn dollara í staðin fyrir tonn. Þá hljómar það nokkurn vegin svona. Þú áttir að borga 500 dollara en borgaðir bara 495 svo þetta gekk ekki, verður næst að borga 600 dollara. Þú borgaðir þessa 600 dollara of seint svo þetta gekk ekki, láttu mig fá 100 í viðbót og þá kemur þetta hjá okkur. Og þannig heldur vitleysan áfram. Sama sagan er með Hafró, alltaf er kveinað um að þeirra fyrirmælum hafi ekki verið fylgt. Stjórnvöld hafa þó hlýtt tilmælum hafró mjög náið og síðan aflareglan var tekin upp ´94 er fylgnin um 95%. Síðast núna í sumar, í þættinum útvegurinn á ÍNNTV, hélt Jóhann Hafróstjóri því fram að með því að geyma fisk í sjónum frá 4 til 5 ára aldurs mætti stórauka þyngd hans, um ca 80-100% sagði hann. Í júní 2007 viðurkenndi sami Jóhann að hann vissi ekki eitt tilvik þess að tekist hefði að byggja upp þorskstofn með friðun. Nú er tímabært að hætta að hlusta á vitleysuna sem kemur frá þeim á Skúlagötunni (hrikalegt að nota þessa fínu skrifstofubyggingu á besta stað í svona fíflagang). Þessi stefna gengur ekki upp, það þarf ekki að reyna þetta lengur. Við höfum ekki efni á þessu og ég amk. er löngu búinn að missa húmorinn fyrir þessu. Þetta er ónýtt kerfi, ónýt ráðgjöf og eins óréttlátt og hugsast getur.
Réttast væri að henda þessum bastarði.
Athugasemdir
Það er rétt. LANGdýrasta tilraun Íslandssögunnar (og pottþétt heimsins miðað við höfðatölu) hefur gjörsamlega mistekist. Það er skömm og hneisa að það skuli eiga að halda þessu til streitu. Það segir eiginlega mest um algjöra vankunnáttu þeirra stjórnmálamanna sem gefa sig út fyrir að vera á móti kerfinu. Þeir reyna endalaust að finna leiðir til að lagfæra kerfið, kerfi sem haldið er slíkum vanköntum að þeir verða ALDREI sniðnir af. Eina leiðin er að taka upp nýtt kerfi þar sem hvatinn er að skila öllum verðmætum að landi. Aflamarkskerfið á að tryggja (samkvæmt LÍÚ) að umgengni um auðlindina á að vera betra en ella, en það hefur þveröfug áhrif!!!
Þórður Már Jónsson, 7.10.2009 kl. 16:24
helvíti fín samlíking hjá þér jafnvel þótt þú berir svona mikla virðingu fyrir afrískum glæpamönnum.annars hljóta jafnvel spágenin á skúlagötunni að fara að játa sig sigraða eftir að hafa drepið alla fiskistofna á íslandsmiðum úr elli.og þá eru bara stjórnmálamenn sem vilja halda uppi braskinu fyrir útvalda fyrirstaða á að við getum aftur farið að lifa á veiðum og vinnslu einsog gert hefur verið gegnum aldirnar.
zappa (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 00:06
alveg hárrétt afnema alla kvóta á stundinni
kristján þórðarson (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 17:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.