Í sjónvarpinu á þriðjudögum

eru virkilega skemmtilegir þættir um Alfreð Elíasson og Loftleiðaævintýrið. Síðasti þáttur af þrem verður sýndur á morgun. Ég mæli með því að þeir sem misstu af þáttunum reyni að komast yfir þá, þeir eru vel þess virði. Í fyrsta þætti var fjallað um viðtökur Flugfélags Íslands þegar Alfreð og félagar komu heim með sína fyrstu flugvél. Flugfélagið vildi tryggja að þessir ungu menn færu ekki í samkeppni við sig. Ég fullyrði að flugheimurinn væri ekki svipur hjá sjón í dag tekist hefði að stoppa þá Loftleiðamenn af. Eða ef stjórnvöld hefðu sagt að í þessu fámenna og fátæka landi myndu ekki tvö flugfélög bera sig og F.Í. hefði einkarétt, byggt á reynslu síðustu ára, á öllu flugi á landinu en að sjálfsögðu mættu Loftleiðamenn nýta sér atvinnufrelsi sitt og kaupa eða leigja flugleiðir af Flugfélaginu. Ætli Loftleiðir hefðu náð flugi ef þeir hefðu þurft að borga F.Í. 50%-80% af innkomu í leigu af flugleiðum?

Þetta er fínasta mæting á fundinn fyrir austan og ekki að undra. Fínt veður og gott tilefni til að sýna sig og sjá aðra og verið að fjalla um mál sem skiptir alla íbúa landsins, ekki bara Eskfirðinga, miklu máli. Ekki hef ég þó trú á að allir 140 fundarmanna séu á móti breytingum á kvótakerfinu, andúðin við kvótakerfið hefur alltaf verið mikil á landsbyggðinni. Ég hef litla trú á að Eskfirðingum finnist kvótakerfið svo æðislegt. Að vísu skaffar Eskja góð störf við uppsjávarvinnslu en þeir leigja allan annan kvóta frá sér, hvert kíló. Ekki er staðan betri á Reyðarfirði þar sem varla nokkur útgerð er lengur, ég held að það sé ein trilla þar sem fær fáeinum tonnum úthlutað árlega.

Það er mikið um það fjallað í áróðursstríði því sem nú fer fram hversu mikið sé búið að fjárfesta í uppsjávarvinnslu fyrir austan. T.d. hefur Grandi byggt upp glæsilega vinnslu á Vopnafirði og Ísfélag Vestmannaeyja er með öfluga vinnslu á Þórshöfn. Og okkur er sagt að íbúar þessara staða eigi að óttast breytingar á kerfinu. En það er nú öðru nær, þó að kerfinu verði breytt fara þessar verksmiðjur ekkert í burtu í þessum breytingum felst raunar aukið atvinnuöryggi fyrir íbúa þessara byggða. Eins og sjá má á bolfiskvinnslu Eskju þá getur atvinnan horfið bara af því að það hentar að leigja eða selja burt kvótann. Enda eru mestu verðmætin í dag í kvótanum. Með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru munu verðmætin aftur verða í stafsmönnum, skipum og fasteignum. Og starfsfólk og fasteignir eru ekki bara leigt eða selt í burt, eru ekki bara tölur á blaði. Og í rauninni dettur engum í hug að latteþambandi íbúar í 101 kaupi til sín allar heimildir, eða að kvótinn fari upp til guðs. Heimildirnar hverfa ekki, við hættum ekki að veiða og vinna fisk. Geti núverandi handhafar kvótans ekki gert út í nýju umhverfi þá verða örugglega einhverjir til þess að taka við og nýta húsin og fólkið. Miðað við hrákasmíð Deloitte um áhrif fyrningaleiðar þá fara að vísu margir á hausinn, enda létt verk og löðurmannlegt að reikna ofurskuldsett fyrirtæki í þrot. Þar segir víst að þó ekki yrði innheimt nema 10 kr á kíló á þoli útgerðin það ekki. Ég spyr þá hvort ekki sé kominn tími á að fá nýja menn í greinina? Það fer illa með hvaða grein sem er að hafa slíkar hömlur á innkomu í hana og viðgengst í sjávarútvegi.

En skiljanlega er fólk uggandi um sinn hag. Enda hóta útvegsmenn öllu illu ef af þessu verður. Hóta að sigla flotanum í land. Hóta að taka kostnaðinn af leigu aflaheimilda af starfsfólki sínu. Þeir eru raunverulega að hóta því að stela launum starfsmanna sinna fái þeir ekki sínu framgengt. Ekki skrýtið þar sem þeir voru svo fjandi nærri því að takast að stela auðlindinni af okkur. En það er svo sannarlega ekki gert ráð fyrir að breytingar á kerfinu eigi að kosta launþega kjaraskerðingu. Samningar eru í gildi og eftir þeim á að fara og að auki hefur samfylkingin á sinni stefnuskrá að allur fiskur verði seldur á fiskmarkaði. Og það er mikil kjarabót fyrir sjómenn.

Ég fjallaði um það hér í annarri færslu aðeins neðar hvað fyrningin raunverulega þýðir fyrir útgerðina og er því ekki að endurtaka það.

Á því er enginn vafi að kvótakerfið hefur algjörlega brugðist. Afli er brot af því sem hann var áður, skuldir útgerðarinnar eru meiri enn nokkru sinni fyrri og allt logar í illdeilum. Hvaða ástæðu höfum við til þess að halda áfram á sömu braut?


mbl.is Fjölmenni á fundi um fyrningarleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband